Bubbi Morthens sendir frá sér Þorpið

Bubbi Morthens sendir frá sér Þorpið
25. apríl 2012
24. breiðskífa Bubba Morthens með frumsömdu efni er komin út og ber hún heitið Þorpið.

Á Þorpinu er að finna 14 ný lög frá Bubba. Á plötunni heldur Bubbi áfram samstarfi sínu við  Sólskuggana sem hófst á síðustu plötu Bubba, Ég trúi á þig, sem kom út sumarið 2011 og gekk afar vel. Ég trúi á þig náði gullsölu og varð söluhæsta nýja plata Bubba síðan 1000 kossa nótt kom út árið 2003.
 
Á Ég trúi á þig má segja að Bubbi og Sólskuggarnir hafi leitað fanga í bandarískri sálartónlist. Í þetta sinn er það annar bandarískur tónlistarstíll sem er rauði þráðurinn í útsetningum og lagasmíðum því segja má að Þorpið sé kántríplata. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bubbi hallar sér að kántríinu. Lífið er ljúft frá árinu 1993, ein af allra vinsælustu plötum Bubba, var líka nánast hreinræktuð kántríplata. Þorpið á sér aðra skírskotun í fyrri verk Bubba því Bubbi hefur sjálfur sagt Þorpið vera systur plötunnar Sögur af landi frá árinu 1990 en aðalyrkisefni beggja er lífið á landsbyggðinni í ýmsum birtingarmyndum.
 
Titillag Þorpsins hefur þegar heyrst mikið á öldum ljósvakans en í laginu syngja þeir saman Bubbi og Mugison. Næsta smáskífulag plötunnar ber heitið Fjórtán öskur á þykkt og fer í spilun á næstu dögum ásamt því að myndband við lagið verður frumsýnt en myndbandið er unnið úr myndefni sem tekið var í upptökuferli plötunnar. Leikstjórinn Árni Sveinsson fylgdist með gerð plötunnar og afraksturinn, auk tónlistarmyndbanda við tvö lög, er heimildamyndin Óskin sem fylgir á DVD með fyrsta upplagi Þorpsins.
 
Forsala á Þorpinu á stafrænu sniði hófst hér á Tónlist.is um miðja sl. viku og það er skemmst frá því að segja að platan rauk beint í efsta sæti sölulistavikunnar á Tónlist.is þrátt fyrir að hafa aðeins verið til sölu í fjóra daga.