Nýdönsk í 25 ár - Uppselt í Eldborg, aukatónleikum bætt við

Nýdönsk í 25 ár - Uppselt í Eldborg, aukatónleikum bætt við
27. apríl 2012 Hljómsveitin Nýdönsk fagnar 25 ára afmæli sínu um þessar mundir og í tilefni af því er blásið til stórtónleika í Eldborgarsal Hörpu, laugardaginn 22. september og menningarhúsinu Hofi Akureyri 29. september. Uppselt er á tónleikana í Hörpu og seldist upp á fyrsta degi. Því hefur verið bætt við aukatónleikum kl. 23. sama dag og fara miðar í sölu kl. 12 í dag, föstudaginn 27. apríl.

Einvalalið tónlistarfólks mun samfagna Nýdönsk og koma fram á tónleikunum. Þetta eru þau Högni Egilsson og Sigríður Thorlacíus úr Hjaltalín, KK, Bryndís Halla Gylfadóttir, Samúel Jón Samúelsson, Urður Hákonardóttir úr Gus Gus auk hinnar einstöku Svanhildar Jakobsdóttur.

Nokkrir þessara listamanna auk annara munu einnig gera svokölluð "tribute" til hljómsveitarinnar og það var KK sem reið á vaðið með laginu Frelsið sem nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir. Lagið er ofarlega á vinsældarlistum og situr nú meðal annars í 2. sæti vinsældarlista Rásar 2. Næsta lag í spilun verður Svefninn laðar í flutningi Urðar Hákonardóttur og President Bongo úr Gus Gus. Lagið kemur út í næstu viku.

Á löngum og litríkum ferli hefur Nýdönsk sent frá sér urmul eftirminnilegra laga og má þar nefna lög eins og Horfðu til himins, Alelda, Hjálpaðu mér upp, Nostradamus og Frelsið.

Á tónleikunum mun Nýdönsk leika sín þekktustu lög í bland við annað áhugavert efni sem rammar inn glæsilegan feril.