Vortónleikar Hjálma - Viltu miða?

Vortónleikar Hjálma - Viltu miða?
10. maí 2012 Sumarið hjá hjálmum hefst með tónleikum í Gamla bíói þann 12. maí en það verða síðustu tónleikar hljómsveitarinnar í Reykjavík í bili. Tónlist.is er með nokkra miða til að gefa á tónleikana og ef þú vilt miða þá þarftu að fara á Facebook síðu Tónlist.is og kvitta á vegginn hjá okkur eða kvitta undir viðeigandi færslu.

Í tilefni tónleikana þá er 50% afsláttur af öllu með hjálmum hér á Tónlist.is um helgina.

Þann 27. maí kemur svo finnski tónlistarmaðurinn Jimi Tenor til landsins til að hefja upptökur á nýrri plötu með hljómsveitinni en áður hafa hjálmar og Jimi Tenor gefið út lagið Messenger of Bad News. Jimi Tenor og hjálmar munu koma fram saman á stórtónleikum Hljómskálans í Hörpu laugardaginn 2. júní en þar verður hægt að heyra afrakstur samvinnunnar sem verður án efa óvenjulegur snúningur á reggítónlistinni.

Jimi Tenor hefur aldrei viljað sinna hefðbundnu hlutverki popptónlistarmanns. Hann er þekktur sem afkastamikill tónlistarmaður sem býr til tónlist sem fellur ekki endilega að straumum og stefnum hvers tíma fyrir sig, en einnig sem flytjandi sem tekst að sameina afró-ameríska tónlist, fíflalæti og glamúr á mjög nýstárlegan hátt. Jimi Tenor er fæddur árið 1965 og hefur starfað sem tónlistarmaður undanfarin 20 ár, m.a. í Berlín, Barcelóna, London og New York.

Í júlí, ágúst og september verða hjálmar síðan á ferð og flugi um Evrópu. Á dögunum gerði hljómsveitin samning við bókunarfyrirtækið Groovmill í Amsterdam sem mun sjá um bókanir fyrir hljómsveitina í Benelux –löndunum. Í sumar munu hjálmar m.a. koma fram á tónlistarhátíðunum de-affaire og Into The Great Wide Open í Hollandi, Bazant Pohoda hátíðinni í Slóvakíu en þar kemur einnig fram Emilíana Torrini, Ilmiö tónlistarhátíðinni í Turku í Finnlandi og Íslandshátíð í Mobryggja í Noregi. Eins eru í undirbúningi tónleikar hljómsveitarinnar í Moskvu og á Grænlandi. Hér á Íslandi er það staðfest að hjálmar munu koma fram á Þjóðhátíð í Eyjum, föstudaginn 3. ágúst.