Snorri Helgason og Ásgeir Trausti í Gym & Tónik

Snorri Helgason og Ásgeir Trausti í Gym & Tónik
15. maí 2012 Tónlistarmennirnir Snorri Helgason og Ásgeir Trausti leiða saman hesta sína í Gym og Tónik salnum á Kex Hostel við Skúlagötu á Uppstigningardag 17 maí nk. Húsið opnar kl. 20.30 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 21. Miðasala verður einungis við dyrnar og því mikilvægt að mæta tímanlega. Miðaverð er 1500 kr.

Um Snorra:
Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur á undanförnum árum skapað sér gott orð í tónlistarheiminum bæði innanlands sem utan. Tónlist Snorra er nokkurs konar þjóðlagapoppbræðingur þar sem sterkar melódíur og kassagítarinn eru í forgrunni. Tónlist Snorra hefur verið líkt við söngvaskáld eins og Neil Young, Paul Simon og Harry Nilsson sem voru upp á sitt besta á árunum í kringum 1970.

Snorri hefur verið starfandi sem tónlistarmaður í u.þ.b. 5 ár og hefur gefið út 4 plötur, 2 með hljómsveitinni Sprengjuhöllin og tvær sólóplötur, I'm Gonna Put My Name On Your Door (2009) og Winter Sun (2011) sem allar hafa fengið mikið lof gagnrýnenda. Lag Snorra, Verum í sambandi, vann meðal annars til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir lag ársíns vorið 2008.

Hljómsveit Snorra Helgasonar er síbreytilegt fyrirbæri og núna skipa hana einungis tveir einstaklingar ásamt Snorra, þau Sigurlaug Gísladóttir(múm & Mr. Silla) sem syngur og spilar á ukulele og Guðmundur Óskar Guðmundsson(Hjaltalín, Borko, Heiðurspiltar o.fl.) sem spilar á rafbassa og barítóngítar.

Um Ásgeir Trausta:
Ásgeir Trausti er nýkominn inná sjónarsviðið í íslensku tónlistarlífi. Nýlega setti hann lagið Sumargestur í útvarpsspilun og hefur það fengið feiknar góðar viðtökur. Um þessar mundir vinnur hann að því að klára sína fyrstu sólóplötu sem kemur út seinna á árinu.
Tónlist Ásgeirs er ennþá að mótast en spilar hann helst melódíska folk tónlist. Tónlist hans hefur verið líkt við Bon Iver, Damien Rice og The Tallest man on earth ásamt fleiru. Ásgeir spilar einnig á gítar í hljómsveitinni The Lovely Lion sem eru einnig að taka sín fyrstu skref um þessar mundir.