Eberg sendir frá sér lagið Long Since I Have Felt This Good

Eberg sendir frá sér lagið Long Since I Have Felt This Good
26. júní 2012 Eberg er tónlistarmaðurinn Einar Tönsberg. Hann hefur áður gefið út þrjár sólóplötur og er annar helmingur dúettsins Feldberg. Hann gaf jafnframt út plötuna Numbers Game í samstarfi við Pétur Ben á síðasta ári.

Nú hefur litið dagsins ljós fyrsta smáskífan af fjórðu sólóplötu Ebergs. Lagið nefnist Long Since I Have Felt This Good. Hér er Eberg mættur með nettan eyrnaorm sem skríður inn í heila og neitar að fara. Long Since I Have Felt This Good er sumarsmellur sem er allt í senn, Bítlapopp og danstónlist eða bara ekta Eberg.

Eberg gaf út sína fyrstu plötu árið 2003 sem bar heitið Plastic Lions. Plötunni var mjög vel tekið af gagnrýnendum út um allan heim og sagði Music Week m.a. að Eberg væri opinberun. Árið 2006 kom út önnur platan hans VoffVoff og seldist hún afar vel á Íslandi. Fyrsta smáskífan af plötunni, I‘m Moving To Wales, fór beint inn á spilunarlista á BBC 6music og stökk í 31. sæti á heimslista iTunes. Þar að auki var lagið Inside My Head notað af Apple í fyrstu auglýsinguna sem fyrirtækið gerði fyrir iPhone síma. Áríð 2009 kom svo þriðja breiðskífa Ebergs Antidote út á vegum Cod Music á Íslandi.