Retro Stefson breiða yfir Nýdönsk

Retro Stefson breiða yfir Nýdönsk
29. júní 2012 Hljómsveitin Retro Stefson hefur hljóðritað lag Björns Jörundar Friðbjörnssonar, Fram á nótt, í tilefni af 25 ára afmæli hljómsveitarinnar Nýdönsk. Björn var aðeins 16 ára þegar hann samdi þetta ástsæla lag og kom það upphaflega út á fyrstu breiðskífu Nýdanskrar, Ekki er á allt kosið, sem kom út árið 1989.

Þeir Unnsteinn Manúel og Haraldur Ari Stefánsson úr Retro Stefson syngja lagið sem er hér í mjög svo nýstárlegum búningi, svo ekki sé meira sagt. Ekki er langt síðan KK gerði sína útgáfu af Frelsinu og fór lagið í efsta sæti Vinsældarlista Rásar 2 auk þess að hafa skorað hátt á öðrum vinsældarlistum, og nú bætist þessi Nýdönsk-ábreiða við.

Hljómsveitin Nýdönsk fagnar á þessu ári 25 ára afmæli og blæs af því tilefni til stórtónleika í Hörpunni 22. september og í Hofi, Akureyri viku síðar, eða 29. september. Þar sem seldist upp á Hörputónleikana á 2 dögum var ákveðið að bæta við aukatónleikum það sama kvöld kl.23.00 og er enn hægt að fá miða á þá en eins og maðurinn sagði þá eru: "örfá sæti laus". Unnsteinn Manúel hefur bæst í hóp gesta sem munu samfagna Nýdanskri á þessum afmælistónleikum en auk hans koma fram Svanhildur Jakobsdóttir, Högni og Sigga úr Hjaltalín, Samúel Jón Samúelsson, Bryndís Halla Gylfadóttir, Urður úr Gus Gus og auðvitað sjálfur KK.